11) Monkey Forest - Balí

11) Monkey Forest - Balí

Á Balí skoðuðum við áhugaverða hluti og sáum athyglisverða staði, en eftirminnilegast var þó að heimsækja þessa apa úti í skógi. Þeir lifðu villtir á ákveðnu svæði þar sem hægt var að nálgast þá ótrúlega vel. Á svona stundum gleymir maður sér gjörsamlega, mínútur og klukkutímar renna saman í eitt. Það var töfrandi að fylgjast með þessum skepnum í daglegu lífi. Aparnir gera allt á svo líkan hátt og við mannfólkið, ungviðið leikur sér á meðan eldra liðið situr íhugult og veltir fyrir sér lífinu. Móðurhlutverkið felur í sér að sjá þeim litlu fyrir mat og passa að þeir fari sér ekki að voða, á meðan karlinn mætir manni illvígur ef maður hættir sér of nálægt og hann telur fjölskyldunni ógnað. Hreyfingar, líkamsburðir og útlit er sláandi líkt okkur mannfólkinu að svo mörgu leyti. Það sem gerði þessa stund svo eftirminnilega var tengingin sem ég fann fyrir, tenging sem ég leita mikið að og elska, tengingin milli mín og náttúrunnar. Þarna var hún komin í einni sinni tærustu mynd. Hlekkur sem sameinaði allt í einu mig og önnur dýr. Ekki það, ég hef svosem séð apa áður, en að fylgjast með þeim, villtum og frjálsum, svo líkum okkur, var ógleymanlegt.