15) Nairobi – Kenýa

15) Nairobi – Kenýa

Mannlífið á götum Nairobi er áhugavert, fjölbreytt og skemmtilegt. Ósamræmið er svo eðlilegt að fljótlega hættir maður að taka eftir því. Stéttaskiptingin er gríðarleg, á milli fólks og hverfa. Það er magnað að skoða fatastílinn, sem oftast er ríkmannlegur. Fátækustu betlarar sitja á götunum í jakkafötum og allir sem þarna sjást á vappi, eru mun betur til fara en ég var. Þó að ýmisleg veraldleg gæði vanti hjá fólki, er það ríkt í mannskepnunni að halda í stoltið. Hvítar skyrtur eru lítið nema vesen þar sem allt er svo þurrt að moldarryk situr yfir öllu, en ég hef aldrei séð hvítari skyrtur en þær sem fólkið klæddist þarna á götum úti. Það var oft gaman að setjast niður og gefa sér tíma til að horfa, nú eða smella af einni mynd, til dæmis þegar eldri kona í dragtarjakka og sínu fínasta pilsi kom gangandi niður stíginn sem aldrei hafði verið neitt annað en moldargata við hlið breiðstrætis.