16) Ástralía

16) Ástralía

Að koma Ástralíu fyrir á einni mynd er ógjörningur, en tilraunin var skemmtileg. Inni í skógi, á vinsælum áningarstað, hittum við nokkrar kengúrur á vappi. Rétt eins og allir aðrir íbúar Ástralíu voru þær í senn afskaplega skemmtilegar og ótrúlega vingjarnlegar. Ég sat drykklanga stund í grasinu, spjallaði við þær og myndaði. Þær virtust jafn áhugasamar um mig eins og ég um þær og ein þeirra vék sér að mér. Forvitnin lék við okkur bæði. Þegar þessi hoppandi pokarotta í yfirstærð ákvað síðan að halda áfram för sinni inn í skóginn lét hún það eftir mér að stoppa örlítið við á eina sólarblettinum í umhverfinu og sitja aðeins fyrir. Því rétt eins og aðrir Ástralar munaði hana ekkert um að gera lítið viðvik eða greiða. Við fórum að lokum brosandi sitt í hvora áttina.