1) Nairobi – Kenýa

1) Nairobi – Kenýa

Á ferð okkar um fátækrahverfið Korogocho í Kenýu lærðum við meira um lífið á einum degi en ég hefði getað ímyndað mér. Heimamaðurinn Raphael fór með okkur um hverfið sitt og sýndi okkur það jákvæða sem þar var að finna, ásamt því neikvæða. Við spjölluðum við menn sem voru að reyna að koma fyrir lýsingu í bárujárnsskýlum sem fólkið bjó í. Lýsingin kemur frá tveggja lítra gosflösku sem er fyllt með vatni og sett í gat á þakinu en verkefnið gengur hægt vegna fjárskorts til að kaupa kítti sem þéttir flöskuna í gatið, sem kostar um 50 krónur á hvert heimili. Þeir vilja samt frekar koma þessu á laggirnar en þurfa að stela rafmagni frá borginni. Við hittum börn sem hafði verið bjargað af ruslahaugunum og heimsóttum fjölskyldu sem átti eins lítið og hugsast gat en bauð okkur samt bæði drykk og brauð. Aldrei hefur mér verið boðið jafn lítið sem á sama tíma er jafn mikið. Lífið er svo afstætt. Við heimsóttum líka leikskóla sem var rekinn í fátækrahverfinu fyrir börn sem öll áttu við einhverja fötlun að stríða. Í samfélagi þar sem þjónustan er engin og fólk sem ekki vinnur fyrir eigin mat sveltur, var mjög notalegt að sjá þá væntumþykju sem þarna ríkti og gleði barnanna veitti manni svo mikla von í miðju vonleysinu. Þegar við gengum inn á leiksvæðið hljóp hópur barna í fangið á okkur, bað okkur að halda á sér og knúsa. Ekki minnkaði brosið þegar við fórum að leika með þeim, blása upp blöðrur sem við gáfum þeim og bara njóta þess að sitja á meðal þeirra. Í miðri gleðinni gripu mig samt augu sem aldrei gleymast. Tilfinningar sem þeim fylgdu spörkuðu harkalega í magann á manni. Þarna var alltaf svo stutt í sorgina. Erfiðleikar sem ég get ekki ímyndað mér voru daglegt líf hjá þessum börnum.