2) Luang Prabang - Laos

2) Luang Prabang - Laos

Þegar maður kemur til Laos breytist allt, tíminn líður hægar, hjartað slær ekki jafn ört og ró færist yfir lífið. Þegar maður pantar sér mat á veitingastað hefur maður á tilfinningunni að þjónninn rölti í rólegheitum og veki kokkinn, segi honum að það sé komin pöntun sem hann geti afgreitt þegar hann vaknar. Þegar ég hélt að leigubíllinn væri bilaður og fastur í öðrum gír á leiðinni af flugvellinum, spurði bílstjórinn hvort við værum nokkuð að flýta okkur. Eflaust ergja einhverjir sig á þessu, en ég neitaði, því ég var langt frá því að vera að flýta mér. Þarna er gott að slappa af, njóta og vera til. Ef einhverjir kunna þá list að lifa lífinu á aðeins minni snúning en við hin þá eru það munkar. Við fengum að fylgjast með þessum ungu munkum mæta í hofið sitt og kyrja. Það var ekkert merkilegra sem beið þeirra, þeim lá ekkert á og þeir höfðu allan tíma í heiminum. Hæfileiki sem ég öfunda þá oft af og er eitthvað sem lærist vonandi einn daginn… að kunna að gefa sér tíma.