3) Floating Market - Tæland

3) Floating Market - Tæland

Á litlum árabáti á markaði sat ein krúttlegasta kona veraldar. Þar eldaði hún tælenskan mat og seldi fólki sem átti leið hjá. Hún hélt það allavega, en það var augljóst að hún var að selja miklu meira. Bros hennar og persónuleiki höfðu margfalt aðdráttarafl á við matinn, sem mér vægast sagt leist ekki á að borða. Ég reyndi að spyrja hvað hún væri eiginlega að elda, en skilningur okkar á tungumáli hvors annars var álíka og á milli hests og geitar. Við brostum hinsvegar bæði og veltum fyrir okkur hvað hitt væri að hugsa. Á heimleiðinni hugsaði ég um að mögulega hefði þetta verið besti matur í landinu og einhvernveginn fannst mér fullkomið að segja skilið við þetta augnablik einmitt þannig, í óvissunni um hvaða fleiri ævintýri hefðu verið þarna á sveimi.