4) Stone Town - Zanzibar

4) Stone Town - Zanzibar

Á lítilli eyju við austurströnd Afríku er paradís, hún heitir Zanzibar. Sólin skín, strendurnar eru gullnar, sjórinn fullur af fiski og lífið er notalegt. Það kemur lítið á óvart að sjá snekkjur milljarðamæringa kúra á haffletinum, staðurinn er fullkominn til þess að slappa af og gleyma amstri hversdagslífsins. Veitingastaðir í fjöruborðinu, þar sem besti rétturinn hverju sinni var það sem veiðimennirnir komu með í land fyrr um daginn, urðu fljótlega í algjöru uppáhaldi sem og risaskjaldbökurnar sem við syntum með dag eftir dag við gistiheimilið okkar. Einna skemmtilegast fannst mér samt að upplifa þá sönnu gleði sem heimamenn bjuggu yfir. Vinnudagurinn hófst greinilega snemma en þegar honum lauk höfðu þeir vit á að njóta þess að vera til. Þarna þurfti enga nútímatækni, sjórinn var þeim allt. Hann skaffaði mat, var samgönguæð við umheiminn og sá þeim fyrir afþreyingu. Unglingarnir fleygðu sér af bryggjunni í kvöldsólinni á meðan fjölskyldufólkið ærslaðist, svamlaði og lék sér í fjöruborðinu. Stress var ekki til staðar og fólkið lifði í núinu. Morgundagurinn kæmi á morgun og yrði eflaust alveg nákvæmlega eins. Eitt af því sem ég lærði í ferðalaginu er að fólk getur notið lífsins burtséð frá því sem ég hef vanist að kalla lífsgæði. Þau sem áttu fátt meira en mat í magann, einhverskonar heimili og föt til skiptanna voru þau sem brostu breiðast og kunnu best að meta líðandi stund. Eiginleiki sem ég vonast til að geta þroskað með mér út ævina.