7) Siem Reap - Kambódía

7) Siem Reap - Kambódía

Þau eru ólík spilin sem okkur eru gefin í upphafi ævinnar. Þetta barn átti fátt annað en bolinn sem það var í og hengirúmið sem var búið að útbúa í árabátnum þar sem það greinilega bjó, allavega yfir daginn. Á svona tímum verður maður ótrúlega máttlaus. Mig langaði að hjálpa, gefa barninu húsaskjól og sjá til þess að það ætti mat, en svo leit ég lengra og sá bara næsta barn og svo næsta í sömu aðstæðum. Börnin eru auðvitað höfð dálítið til sýnis, til þess einmitt að kveikja þessar tilfinningar hjá gjafmildu fólki sem hendir til þeirra aur. En þess vegna getur maður ekkert gert, barnið fær ekkert endilega betra líf þó að ég gefi því aur og ég vil ekki vera ábyrgur fyrir því að það sé notað í þessum tilgangi. Það þyrmir yfir mann tvenns konar tilfinningum. Annarsvegar vorkunn og vonleysi fyrir hönd þessa fólks og hinsvegar ótrúlegu þakklæti fyrir það sem maður hefur. Mín vandamál hverfa í samanburði við þau sem ég horfði á. Ég reyni að endurlifa þessar minningar í hvert sinn sem ég barma mér yfir einhverju, einhverju sem í raun er svo ómerkilegt.