8) Nairobi – Kenýa

8) Nairobi – Kenýa

Við hittum þennan litla gutta á leikskóla fyrir fötluð börn í Korogocho fátækrahverfinu í Nairobi. Afmyndaður í andliti og án allra fingra eftir bruna, sat hann og borðaði Ugali, bragðlausan graut úr maísmjöli. Þar sem ég sat og sá lítið annað en hörmungarnar í lífi hans kom kennslukonan og breytti allri minni hugsun með örfáum orðum. Hún sagði hann einstaklega heppinn, ekki bara að hafa haldið lífi, heldur að hafa endað á stað þar sem honum væri séð fyrir fötum, húsaskjóli og mat. Heppni er afstæð og viðhorf til lífsins er undir manni sjálfum komið. Að horfa á jákvæðu hlutina í aðstæðum er val sem hjálpar okkur gríðarlega á lífsleiðinni. Þegar ég kom, sá ég þennan strák og hans hræðilegu sögu. Þegar ég fór, kvaddi ég hann sem sigurvegara. Hann var ekki að tapa í lífinu heldur hafði hann hitt sjálfan dauðann, horft í augun á honum og sigrað, í bili.